Stór áfangi náðist í dag þegar steyptur var botninn í fyrsta fiskeldiskerið í áfanga 2 í Viðlagafjöru. Þetta táknræna skref markar upphaf sýnilegrar uppbyggingar kerjanna, þó svo að vinna við áfangann hafi hafist snemma á þessu ári.
Í hvert ker fara um 200 rúmmetrar af steypu og eru þau bæði umfangsmikil að stærð og krefjandi í framkvæmd. Hvert ker er 28 metrar í þvermál, rúmir 13 metrar á hæð og rúmar um 5.000 rúmmetra af sjó.
Líkt og í áfanga 1 verða alls átta ker reist í áfanga 2 og um er að ræða sömu gerð kerja og þar voru notuð, sem hafa sannað sig vel. Stefnt er að því að uppbygging þeirra hefjist í júní og mun hún standa yfir fram á haust.
Verkið hefur gengið vel og markar þetta mikilvægt skref í áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins.